Ársskýrsla 2021

 

Ársskýrsla 2021

"
  • Ávarp landgræðslustjóra
  • Ávarp matvælaráðherra
  • Fróðleikskorn úr starfi
  • Vörður
  • Rekstraryfirlit
  • Vernd og endurheimt vistkerfa
  • Þurrlendisvistkerfi
  • Votlendisvistkerfi
  • Samstarf um vernd og endurheimt vistkerfa

  • Jarðvegur og loftslag

  • Hringrásir og nýsköpun

  • Sjálfbær landnýting
  • Samstarf um sjálfbæra landnýtingu
  • Landgræðsluverðlaun 2022

Ávarp landgræðslustjóra

Ritað ávarp landgræðslustjóra:

Ágæta starfsfólk Landgræðslunnar og ágætu landsmenn.  

Árið 2021 var ár mikilla breytinga og þróunar á rafrænum samskiptum. Segja má að Covid hafi þvingað okkur yfir í netheima en starfsfólk Landgræðslunnar aðlagaðist hratt þessu breytta vinnulagi. Kolefnisspor stofnunarinnar minnkaði vegna heimavinnu, færri ferða til og frá vinnu og til funda. Allar stærri ráðstefnur erlendis voru í netheimum sem hefur gefið fleira starfsfólki tækifæri til þátttöku í endur- og símenntun. Innleiðing rafrænna reikninga og samninga hefur einnig sparað mikinn tíma og fjármuni.
Vegna heimavinnu og Covid voru settir af stað stuttir upplýsingafundir á samskiptaforritinu Teams alla mánudaga, strax eftir matarhlé. Fundirnir hafa stóraukið samskipti og upplýsingaflæði og verður þeim haldið áfram. Stytting vinnuvikunnar var innleidd og því fylgdi breytt fyrirkomulag varðandi skipulag vinnu á nokkrum sviðum m.a. mötuneyti í Gunnarsholti sem er ekki lengur opið á föstudögum. Mikil ánægja er með nýtt vinnufyrirkomulag.

Átak var gert í endurbótum á vinnuaðstöðu í Gunnarsholti því loftslags- og vöktunarverkefni eru orðin mun viðameiri þáttur í starfinu sem kölluðu á endurbætur á aðstöðunni. Að jafnaði starfa nú sex á rannsóknastofu við vinnslu jarðvegs- og gróðursýna.
Drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu voru í vinnslu á árinu 2021. Mikil upplýsingaöflun fór fram, m.a. viðræður við hagsmunaaðila áður en drögin fóru í Samráðsgátt stjórnvalda. Alls bárust 88 athugasemdir við drögin og ljóst að ólík sýn er á málið. Eftir skoðun á athugasemdunum var ákveðið að einfalda drögin og vinna kort sem sýna ástand allra beitilanda. Þessi vinna reyndist viðamikil en stefnt er að endurteknu samráði í Samráðsgátt þegar kortavinnu lýkur á árinu 2022.

Vinnu við landgræðsluáætlun lauk haustið 2021 og var áætluninni skilað til umhverfisráðherra. Lög um landgræðslu og lög um skógrækt gera ráð fyrir að landgræðslu- og skógræktaráætlanir verði samræmdar en sú samræming náðist ekki fyrir kosningar. Það kemur því í hlut matvælaráðherra að samræma áætlanirnar því Landgræðslan og Skógræktin voru fluttar yfir í nýtt ráðuneyti, Matvælaráðuneytið.
Landgræðslan hefur á undanförnum árum verið að auka notkun á lífrænum áburðarefnum í starfi sínu. Notkun seyru og svartvatns úr rotþróm hefur komist í góðan farveg í samstarfi við sveitarfélög og aukinn skilningur er nú á því að um er að ræða verðmæt áburðarefni sem nauðsynlegt er að fá aftur inn í hringrás vistkerfanna í stað þess að urða þau eða dæla þeim út í sjó eða næstu á. Til að stuðla að enn frekari notkun lífrænna áburðarefna útbjó Landgræðslan áburðarreiknivél í samstarfi við Verkfræðistofuna EFLU. Með áburðarreiknivélinni er hægt að bera saman tilbúinn innfluttan áburð, áburðargildi og kolefnisspor mismunandi lífrænna efna eins og t.d. kúamykju, fiskeldisseyru, kjötmjöls og fleiri efna og reikna út hversu langt borgar sig að flytja lífrænu efnin.
Samstarf Landgræðslunnar og Skógræktarinnar jókst enn frekar á árinu 2021. Birkifræsöfnun er orðinn fastur liður í starfinu og aukinn kraftur var settur í stóru samstarfsverkefnin Hekluskóga og Þorláksskóga og alls voru gróðursettar 1,6 milljónir birkiplantna. Umhverfisráðherra undirritaði fyrir Íslands hönd Bonnáskorunina sem hefur það að markmiði að auka útbreiðslu náttúruskóga, þ.e. birkiskóga og víðikjarrs á landinu úr 1,5% í 5%. Þetta er mikil áskorun sem kallar á samstarf við landeigendur og sveitarfélög um allt land.

Það er gríðarlega mikilvægt að skýra eignarréttarlega stöðu landgræðslusvæða sem deilt hefur verið um, en á síðustu árum hafa línur mikið skýrst, bæði með dómum og dómsáttum. Endanlegur dómur féll, hvað varðar langstærstan þáttinn, í eignarréttarmáli er varðar Ássandi í Kelduhverfi. Aðeins litlum hluta málsins var áfrýjað til Landsréttar og bíður þar úrlausnar. Fallist var á þær kröfur ríkisins að landið væri undirorpið beinum eignarrétti á grundvelli afsals frá því fyrir miðja síðustu öld. Nokkur mál eru þó óleyst og kann að koma til þess að þeim verði ekki lokið nema fyrir tilstilli dómstóla.

Landgræðslan hefur í nokkur ár verið í samstarf við þjóðkirkjuna, innlend og erlend trúar- og lífsskoðunarfélög og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna. Tilgangur samstarfsins er að vekja athygli á loftslagsmálum og brýnni þörf á aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, því við eigum bara eina jörð. Haldin var alþjóðleg ráðstefnan “Faith for Nature” rafrænt í október 2020 með þátttöku um fimm þúsund manna víða um heim. Til að fylgja málum eftir var haldinn fundur í Skálholti á árinu 2021. Mikilvægt er að ólíkar trúarstofnanir, lífsskoðunarfélög og trúarbrögð um allan heim hvetji til aðgerða til að bregðast við loftslagshamförum og stuðli að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Endurheimt votlendis hefur ekki gengið eins vel og æskilegt væri því lostlagsáhrif framræsts lands eru gríðarlega mikil og eru líklega einn stærsti einstaki þátturinn í losun kolefnis á Íslandi. Rannsóknum var haldið áfram af auknum krafti en ennþá er nokkuð í land með að fá fulla mynd af því flókna samspili árstíða og vatns í mismunandi formi á losun gróðurhúsalofttegunda.

Landgræðslunni var boðið að taka þátt í sérstökum „loftslagsskála“ á COP-26 fundi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í nóvember 2021. Unnin var kynning á endurheimtarstarfinu á Íslandi fyrir veraldarvefinn og Landgræðslan stóð einnig fyrir fundi þann 12. nóvember. Fundurinn fjallaði um mikilvægi þátttöku almennings og hagaðila við að endurheimta votlendi. Umhverfisráðuneytið styrkti þátttöku Íslands í viðburðinum og umhverfisráðherra ásamt tveimur írskum ráðherrum tóku þátt og vakti fundurinn verulega athygli. Starfsfólk Landgræðslunnar með Þórunni W. Pétursdóttur í fylkingarbrjósti báru þungann af undirbúningi.
Starfsfólki Landgræðslunnar fjölgaði á árinu 2021 því umfang verkefna hefur aukist. Stofnunin hefur notið trausts og velvilja stjórnvalda og samstarfsaðila. Við erum með öflugan hóp sem brennur fyrir að bæta ástand landsins okkar, gera samfélaginu gagn og við erum tilbúið til að takast á við nýjar áskoranir.

Ég þakka starfsfólki ánægjulegt og árangursríkt samstarf á árinu 2021.

Ávarp matvælaráðherra

Ritað ávarp matvælaráðherra:

Komið þið sæl kæra landgræðslufólk.

Landgræðslan og hennar starfsfólk hafa tekist á við stórar áskoranir frá því að Sandgræðsla Íslands var stofnuð 1907. Síðan þá hefur grettistaki verið lyft og áhugavert væri fyrir úrtölufólk þess tíma að sjá þann árangur sem náðst hefur víða í landgræðslu.

Í dag stöndum við öll frammi fyrir stórum áskorunum þegar kemur að því að sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og loftslagsbreytingum. Ýkjulaust má segja að við séum á ögurstundu þegar kemur að því að snúa þróuninni við. Ein af haldbærum lausnum er vernd og endurheimt vistkerfa svo sem skóga og votlendis sem skipta sköpum fyrir líffræðilega fjölbreytni og loftslag. Þar er Landgræðslan ásamt Skógræktinni í fararbroddi en mikilvægi þessara stofnana hefur sjaldan verið eins augljóst og nú.

Landgræðslan hefur verið dugleg við að vekja athygli á mikilvægi þess að vernda og endurheimta vistkerfi og efla viðnámsþrótt þeirra og er það í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna sem tileinkuðu áratuginn 2021-2030 endurheimt vistkerfa. Endurheimt gróðurþekju og votlendis eykur viðnámsþol gegn náttúruvá, bætir vatnsmiðlun og er liður í aðlögun að loftslagsbreytingum.

Landgræðslan hefur unnið brautryðjendastarf í að greina möguleika til að auka notkun lífræns áburðar og þar með minnka notkun tilbúins áburðar til landgræðslu. Þetta er mikilvæg aðgerð í loftslagsmálum og fyrirmyndar hringrásarhagkerfi þar sem verðmæti skapast úr því sem áður var einskis eða lítils virði.

Í stjórnarsáttmála eru markmið um samdrátt í losun til að mæta megi skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum meðal annars vegna landnotkunar. Áhersla er lögð á að efla náttúrumiðaðar lausnir, til dæmis með hvötum til aukinnar skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis. Einnig skal efla rannsóknir á losun og bindingu kolefnis vegna samspils landnýtingar og loftslagsmála.

Eitt af þeim verkefnum sem við í Matvælaráðuneytinu tökumst á við um þessar mundir er samræming landgræðsluáætlunar og landsáætlunar í skógrækt. Þar er rík áhersla lögð á að efla vernd og heilbrigði vistkerfa ásamt því að stuðla að sjálfbærri landnýtingu.

Við samræmingu þessara áætlana er áhersla lögð á náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum sem samræmast alþjóðlegum skuldbindingum. Aðgerðir í loftslagsmálum sem felast í kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi skulu haldast í hendur við aðgerðir til verndar líffræðilegri fjölbreytni. Mikilvægt er að aðgerðirnar vinni saman, en ekki gegn hver annarri.

Víðtækt og aukið samstarf eru þættir sem sérstaklega er hugað að og lögð áhersla á hvernig fólkið í landinu geti tekið þátt í landgræðslu sem um leið eykur þekkingu og skilning á náttúrunni. Einnig er litið til þess hvernig auka megi samstarf milli aðila þar sem leitað er samlegðar og samþættingar í verkefnum stofnana og annarra. Slík nálgun skilar meiri og dýpri þekkingu sem aftur leiðir til markvissari vinnubragða.

Kæra landgræðslufólk, ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, mig langar til að þakka ykkur fyrir það góða starf sem Landgræðslan hefur unnið og óska ykkur góðs gengis og gæfu á komandi starfsári.

Fróðleikskorn úr starfi

ha svæði þar sem var unnið að sáningu og styrkingu gróðurs

trjám plantað í landgræðslusvæði í samstarfi við skógræktina

landgræðslusvæði í umsjá Landgræðslunnar, þar af um 100 sem eru friðuð fyrir búfjárbeit

beitarfriðaðir ha innan girðinga

kg af óhreinsuðu birkifræi safnaðist en árið 2020 safnaðist 275 kg

ha þar sem Landgræðslan vann að endurheimt votlendis

þátttakendur í Bændur græða landið (BGL)

tonn af fræi var sáð af þátttakendum BGL

tonn af lífrænum áburði var dreift árið 2021 þar af 1000 í BGL

þátttakendur í verkefninu Gæðastýring í sauðfjárrækt

vöktunarreitir Grólindar, sem er aukning um 172 frá árinu 2020

hrossabú stóðust úttektarkröfur Hagagæða

Vörður á vegi Landgræðslunnar

Rekstraryfirlit 2021

Tekjur 2021 2020
Framlag ríkissjóðs 1,146,366 1,054,514
Sértekjur 230,474 207,056
Aðrar rekstrartekjur 5,750 5,518
1,382,590 1,267,088
Laun 721,873 619,080
Rekstrarkostnaður 245,509 267,008
Aðkeypt þjónusta 106,095 175,323
Rekstrarvörur 145,096 82,038
Húsnæði 73,282 75,238
Ferðir og fundir 43,520 38,547
Bifreiðar og vélar 31,776 29,495
1,367,151 1,286,729
Rekstrarniðurstaða 15,439 -19,641

Vernd og endurheimt vistkerfa

Endurheimt þurrlendis

Eitt af meginhlutverkum Landgræðslunnar er vernd og endurheimt vistkerfa. Vistkerfi á Íslandi eru mjög fjölbreytt og víða ekki í góðu ástandi m.t.t. hringrása vatns, næringarefna og kolefnis. Þetta leiðir af sér að vistkerfisþjónusta þeirra er takmörkuð. Stór hluti af vinnu stofnunarinnar felst því í að endurheimta vistkerfi sem hafa raskast og meðal annars auka líffræðilega fjölbreytni, þanþol gagnvart náttúruvá og getu þeirra til að binda kolefni úr andrúmslofti. Áratugurinn 2021-2030 er áratugur Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa enda eitt mikilvægasta viðfangsefni samtímans.

Þurrlendisvistkerfi

Birkiskogur.is

Landgræðslan vinnur að endurheimt þurrlendisvistkerfa eftir fjölmörgum leiðum og oftast í samstarfi við bændur, sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Unnið var að sáningu og styrkingu gróðurs á alls um 17 þúsund hekturum. Auk þess var tæplega einni milljón trjáa plantað í landgræðslusvæði í samstarfi við Skógræktina. Einnig varð veruleg aukning á nýtingu lífræns áburðar til landgræðslu frá fyrri árum. Því má segja að breyting sé að eiga sér stað í aðferðum við endurheimt vistkerfa með áherslu á endurheimt víðikjarrs og birkiskóga og nýtingu lífræns áburðar í anda hringrásarhagkerfis.

Landgræðslan hefur umsjón með um 140 landgræðslusvæðum og þar af eru um 100 þeirra friðuð fyrir búfjárbeit. Friðun fyrir búfjárbeit eykur árangur landgræðsluaðgerða og hefur áhrif á tegundasamsetningu þess gróðurs sem nemur land. Í tengslum við þessa vinnu er stofnunin með um 800 kílómetra af girðingum í árlegu viðhaldi og endurnýjun eftir þörfum auk þess sem í Gunnarsholti er starfrækt frævinnslustöð þar sem framleitt er fræ og plöntur innlendra landgræðslutegunda.

BirkiVist

Rannsóknaverkefnið Endurheimt birkivistkerfa á 21. öld – áskoranir, leiðir og ávinningur (stytt BirkiVist) hófst í mars 2021 og er styrkt af Markáætlun RANNÍS um samfélagslegar áskoranir. BirkiVist er samstarfsverkefni háskóla (Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, og Háskólans á Akureyri), stofnana (Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, Náttúrufræðistofnunar, og NINA – Norsk institutt for naturforskning), Svarma ehf. og Landgræðsluskóla GRÓ. Tilgangur þess er að auka möguleikana á betri skilvirkni við endurheimt birkiskóga með áherslu á sjálfgræðslu birkis og tryggja að endurheimtin sé byggð á bestu fáanlegu þekkingu. Í verkefninu er beitt þverfræðilegri nálgun við að greina helstu vistfræðilega, félagslega og stjórnsýslulega þætti sem geta hindrað eða flýtt endurheimt birkivistkerfa og greina ávinning og umhverfisáhrif endurheimtar birkiskóga. Í verkefninu er lögð áhersla á að þjálfa ungt fólk í vistheimtarfræðum og munu átta framhaldsnemar taka þátt í mismunandi þáttum þess. Sumarið 2021 voru 10 birkiskógar valdir til rannsókna og gagnasöfnun tveggja doktorsnema fór fram í og við alla skógana.

Birkivist⤏

 

Söfnun og sáning á birkifræi

Verkefnið Söfnun og sáning á birkifræi er samstarfsverkefni Landgræðslunnar og Skógræktarinnar sem hófst vorið 2020. Markmiðið er að nýta krafta almennings til að efla útbreiðslu birkiskóga og jafnframt vekja athygli á mikilvægi endurheimtar vistkerfa. Samstarfsaðilar eru fyrirtækin Prentmet Oddi, Bónus og Terra. Þá eru Lionshreyfingin, Landvernd, Skógræktarfélag Kópavogs, Skógræktarfélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands einnig aðilar að samstarfinu. Mikil áhersla var lögð á kynningu verkefnisins og fræðslu.

Árið 2021 söfnuðust aðeins um 20 kg af óhreinsuðu fræi. Þá var lítið fræ á birki, einkum um sunnan og vestanvert landið, en árið 2020 söfnuðust um 275 kg. Nú hefur mestöllu þessu fræi verið sáð. Mestu hefur verið sáð af einstaklingum á þeim svæðum þar sem safnað var, en hluta af fræinu var vélsáð, einkum á Hekluskógasvæðinu. Verkefnið hefur hlotið mikla athygli almennings og fjölmiðla, einkum árið 2020 enda var gott fræár sem eflaust hefur valdið því að auðveldara var að vekja athygli á málefninu. Einnig rímar það vel við innlendar og erlendar áherslur um endurheimt náttúruskóga.

Bonn áskorunin

Á haustdögum 2021 staðfesti Ísland þátttöku sína í Bonn áskoruninni. Það verkefni er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga á stórum samfelldum svæðum eða landslagsheildum, skipulagt af alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN. Ísland ætlar að leggja grunn að endurheimt birkiskóga á 350.000 hekturum fyrir árið 2030 og auka þannig kolefnisbindingu í náttúruskógum samhliða því að draga úr losun frá landi, vernda og auka líffræðilegan fjölbreytileika og styrkja byggðir landsins. Verkefninu verður stýrt sameiginlega af Skógræktinni og Landgræðslunni og unnið í nánu samstarfi við sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og almenning landsins.

Bonn Challenge⤏

 

Votlendisvistkerfi

Samvinna

Landgræðslan vann að endurheimt votlendis á fjórum svæðum í samstarfi við landeigendur. Unnið var á alls 107 ha svæði. Framkvæmt var í Vopnafjarðarhreppi (Vatnsdalsgerði), Skagafirði (Kambur), Borgarbyggð (Oddstaðahlíð) og Ölfusi (Alviðra). Áfram var unnið að kortlagningu og áætlanagerð fyrir endurheimt votlendis í samstarfi við Votlendissjóð og Þjóðkirkjuna. Verklag við endurheimt votlendis var endurskoðað. Helst má nefna þá nýbreytni að á árinu hófst samstarf við Minjastofnun. Áætluð endurheimtarsvæði verða nú framvegis send til minjavarða til athugunar fyrir framkvæmdir. Jafnframt var leiðbeiningarit fyrir framkvæmdaaðila endurheimtar votlendis gefið út á árinu. 

Samstarf um vernd og endurheimt vistkerfa

Samvinna

Landgræðslan vinnur að endurheimt vistkerfa með fjölmörgum aðilum, svo sem Vegagerðinni, Landsvirkjun,Olís, Skógræktinni, sveitarfélögum og einstaklingum. Landgræðslan tekur þátt í æ fleiri samstarfsverkefnum og þá ekki síst í verkefnum sem hafa kolefnisbindingu með endurheimt vistkerfa að markmiði.

Á þeim grunni hefur stofnunin til dæmis verið í samstarfi við Landsvirkjun um kolefnisbindingu og á árinu 2021 bættist við slíkt svæði í landi Víkingslækjar á Rangárvöllum. Aðkoma Landgræðslunnar er mismunandi eftir eðli verkefna og aðstæðum. Í öllum tilvikum sér Landgræðslan um áætlanagerð og skráningu aðgerða og úrlausn flókinna viðfangsefna.  

Bændur græða landið (BGL)

Verkefnið Bændur græða landið hefur verið unnið í samstarfi Landgræðslunnar, bænda og annarra landeigenda frá árinu 1990. Tilgangur verkefnisins er að stöðva jarðvegsrof í heimalöndum og endurheimta vistkerfi.  

Árið 2021 var farið að styrkja aðila til að græða upp land með lífrænum áburði en fram að því hefur áhersla verið á að styrkja uppgræðslu með tilbúnum áburði. 

Skráðir þátttakendur í verkefninu árið 2021 voru 501, þar af 400 virkir, og dreifðu þeir rúmlega 1.000 tonnum af áburði og sáðu 8.315 kg af fræi.  Áætlað er að unnið hafi verið að uppgræðslu á um 5.100 ha auk um 50 ha þar sem nýttur var lífrænn áburður.  

Landbótasjóður

Með verkefninu er ábyrgð og framkvæmd landgræðsluverkefna færð heim í hérað. Við styrkveitingar er lögð áhersla á stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og endurheimt vistkerfa. Auk þess er lögð áhersla á sjálfbæra landnýtingu og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi. Veittir voru styrkir til 92 verkefna að upphæð 93,3 m.kr. auk þess útvegar Landgræðslan fræ þar sem þörf er á slíku.  

Heildarumfang uppgræðsluaðgerða var um 4.800  ha 2021 (að undanskildum rúllum) og hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Fyrir því eru tvær ástæður, annars vegar hækkun verðs á  tilbúnum áburði, og hins vegar aukin notkun lífræns áburðar. Kostnaður á ha er dýrari með lífrænum áburði en tilbúnum en hann virkar yfir lengri tíma. Notkun lífræns áburðar til uppgræðslu hefur verið stigvaxandi frá árinu 2015 úr þúsund tonnum í 8.000 tonn árið 2021.   

 

Varnir gegn landbroti

Viðfangsefni verkefnisins er að vinna gegn landbroti af völdum vatna og koma þannig í veg fyrir eða lágmarka tjón á mannvirkjum, gróðri eða jarðvegi. Verkefnin felast nær eingöngu í bakkavörnum og viðhaldi eldri mannvirkja. Að jafnaði er unnið að um 20 verkefnum á ári. Þetta er eitt af stærri verkefnum stofnunarinnar þegar kemur að jarðvegsvernd, en með landbroti getur mikið af lífrænu efni tapast auk annars tjóns á vistkerfum, ræktun og mannvirkjum. Þá gegna varnargarðar lykilhlutverki þegar kemur að því að verjast náttúruvá.

Árið 2021 urðu árflóð og jökulhlaup allvíða, t.d. krapastífla í Jökulsá á Fjöllum og hlaup úr báðum kötlum Skaftár, og leika varnargarðar og bakkavarnir stórt hlutverk í að draga úr tjóni vegna þessa. 

 

Loftslagsvænni Landbúnaður

Landgræðslan tekur þátt í framkvæmd verkefnisins Loftslagsvænni landbúnaður. Verkefnið er hluti af framkvæmd aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum 2018-2030 og er samvinnuverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Landssamtaka sauðfjárbænda, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og Ráðgjafarsmiðstöðvar landbúnaðarins. 

Verkefnið hófst formlega 1. janúar 2020 og markmið þess er að leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði jafnframt því að auka kolefnisbindingu. Haldin voru námskeið um loftslagsmál, leiðir til að draga úr losun koltvísýrings og mögulegar mótvægisaðgerðir með skógrækt og endurheimt vistkerfa. Verkefnið var í upphafi sniðið að sauðfjárbændum, en á árinu 2021 komu nautgripabændur einnig inn í verkefnið og þátttakendur nú orðnir 40. Í verkefninu er lögð áhersla á fræðslu, gerð og eftirfylgni aðgerðaáætlunar sem byggir á SMART markmiðasetningu. Sóttvarnir hafa sett svip sinn á framkvæmdina og það hefur leitt til mikillar þróunar í notkun fjarfunda og veflausna við fræðslu og ráðgjöf til þátttakenda. 

 

Jarðvegur og loftslag

Samvinna

Mikilvægi tengsla jarðvegs og loftslags hafa komið sífellt betur ljós eftir því sem við gerum okkur betur grein fyrir þeim áhrifum sem við höfum haft á veðrakerfi jarðar. Með sífellt aukinni notkun jarðefnaeldsneytis þá höfum við fært umtalsvert magn kolefnis, sem áður var vel geymt í jörðu, upp í andrúmsloftið sem koltvísýring. Koltvísýringurinn safnast þar saman og hefur m.a. þau áhrif að lofthjúpurinn hitnar með þeim afleiðingum sem við þekkjum í dag.Við þessu þarf að bregðast. Bæði verður að draga úr losun koltvísýrings og einnig verður að auka bindingu hans.

Varanlegasti kolefnisgeymirinn sem við höfum aðgang að í dag er jarðvegur. Með því að binda kolefni í jarðvegi erum við að stuðla að tilfærslu þess úr andrúmslofti og um leið geymslu þess á stöðugu formi. Jafnframt erum við að auka frjósemi og vatnsmiðlunarmátt jarðvegsins því hvort tveggja er nátengt styrk jarðvegskolefnis. 

Landgræðslan sér um ýmis verkefni sem tengjast þessum málaflokki. Öll tengjast þau landnýtingarhluta loftslagsbókhalds Íslands (svokallað LULUCF) með einhverjum hætti. 

LULUCF⤏

 

Kolefnisbókhald

Landgræðslan ber ábyrgð á að taka saman upplýsingar um alla landnýtingu á Íslandi, að skógrækt undanskilinni, og þau áhrif sem hún hefur á losun eða bindingu gróðurhúsalofttegunda.  Þessi gögn eru skráð í gagnagátt Loftslagssamningsins og jafnframt er árlega gefin út skýrsla af Umhverfisstofnun. Þar er m.a. gerð grein fyrir stöðu þessa hluta loftslagsbókhaldsins af hálfu Landgræðslunnar. Þau gögn sem notuð eru koma frá ýmsum aðilum, en æ stærri hluti þeirra er nú aflað með rannsóknaverkefnum sem Landgræðslan tekur þátt í eða stendur að. 

 

Kolefnismælingar

Frá 2007 hefur Landgræðslan safnað gögnum um árangur landgræðsluaðgerða og þar á meðal breytingar á kolefnisforða í gróðri og jarðvegi. Um 640 virkir mælireitir eru á landgræðslusvæðum víðsvegar um land og nú er að ljúka seinni yfirferð mælinga. Niðurstöður úr þessu stóra verkefni skipta miklu máli því þær má m.a. nota til að metaárangur á hverjum stað og einnig hvernig hagkvæmast er að standa að landgræðsluaðgerðum. 

Árið 2020 hóf Landgræðslan að meta kolefnisbindingu annarra landgerða en uppgræðslusvæða, með sérstakri áherslu á mólendi og votlendi. Þar er beitt annars konar nálgun en áður, því mæld er bein losun koltvísýrings og safnað gögnum um raunverulega losun eða bindingu á hverjum tíma. Lögð hefur verið áhersla á að koma á samstarfi við heimamenn um þessar mælingar. Þannig hófst samstarf við Náttúrustofu Suðausturlands vorið 2021 og líklegt er að fleiri aðilar bætist í hópinn. Með slíkri nálgun eykur Landgræðslan skilning á áhrifum landnotkunar á hverjum stað og stuðlar jafnframt að uppbyggingu mikilvægrar þekkingar. 

Vöktun votlendis

Ýmiskonar votlendi þekur um fimmtung gróins lands á Íslandi og hefur stórum hluta þess verið raskað. Til að afla þekkingar á ferlum og virkni votlendisvistkerfa í fjölbreyttu ástandi og meta árangur endurheimtar hóf Landgræðslan vöktunarverkefni árið 2017 í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnarháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Þá var lögð áhersla á að meta upphafsástand valdra raskaðra svæða sem voru endurheimt 2019.

Settir voru upp fastir vöktunarreitir til að mæla breytingar í kjölfar endurheimtarinnar. Innan hvers vöktunarreits hafa farið fram mælingar á upphafsástandi gróðurs og jarðvegs ásamt reglulegum vettvangsferðum þar sem gerðar voru mælingar á grunnvatnshæð, jarðvegshita, flæði CO2 og CH4 úr jarðvegi, blaðgrænustuðli gróðurs. Frumniðurstöður benda til þess munur sé mikill á flestum mæliþáttum milli svæða og innan svæða. Á þeim svæðum þar sem endurheimtaraðgerðir voru fullnægjandi hækkaði vatnshæð marktækt við endurheimt og það dró úr losun CO2 en breyting á losun CH4 var ekki marktæk.  

Hringrásir og nýsköpun

Rannsóknar og vöktunarverkefni

Landgræðslan leggur áherslu á að nýta meira lífræn áburðarefni til uppgræðslu. Í þeim eru öll næringarefni sem plöntur þurfa á að halda. Það hentar því markmiðum landgræðslu mjög vel að nýta þessi efni. Nýting þeirra fellur einnig vel að hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins sem fjallar um að draga úr úrgangsmyndun og endurnýta úrgang sem mest við megum. 

Lífræn efni í landgræðslu

Verkefnið Sjálfbær áburðarframleiðsla var sett af stað á vordögum 2021. Að verkefninu koma Landgræðslan, Matís, Hafrannsóknastofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands og Atmonia. Það er styrkt af Markáætlun RANNÍS og er til tveggja ára. Í verkefninu er unnið að því að kortleggja magn lífrænna aukahráefna og vandamálaúrgangs sem fellur til á Íslandi með það í huga að nýta hann í landgræðslu og til jarðræktar. Nýsköpunarfyrirtækið Atmonia tekur einnig þátt í verkefninu en fyrirtækið þróar umhverfisvænan framleiðsluferil fyrir köfnunarefnisáburð. Hluti verkefnisins sem Landgræðslan sér um er að prófa hin ýmsu lífrænu efni til uppgræðslu, mæla gróðurframvindu og næringarástand jarðvegs.

 

Aukning í notkun lífrænna efna til uppgræðslu heldur áfram og fór heildarmagn þeirra yfir 8.000 tonn á árinu. Það er um 25% aukning á milli ára en miðað við árið 2015 hefur notkunin sexfaldast. Mesta aukningin á síðasta ári var í notkun kjúklingaskíts sem var um 45% af heildarnotkuninni.  

Sjálfbær landnýting

Sjálfbær landnýting

Samkvæmt lögum um landgræðslu ber Landgræðslunni að stuðla að sjálfbærri landnýtingu. Landnýting er með ýmsu móti. Land er til að mynda nýtt undir mannvirki, til ferðaþjónustu, til ræktunar nytjajurta og til búfjárbeitar. Á árinu 2021 var unnið að drögum um viðmið um sjálfbæra landnýtingu sem nú er í umsagnarferli en birtast í formi reglugerðar með staðfestingu ráðherra að ferlinu loknu. Fjölmargar umsagnir bárust og stefnt er að því að ljúka úrvinnslu árið 2022.  

Samstarf um sjálfbæra landnýtingu

Sjálfbær landnýting

Landgræðslan er aðili að samstarfsverkefnum um sjálfbæra landnýtingu enda gott samstarf forsenda þess að ná árangri í málaflokknum. Má þar nefna samstarf við bændur, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Matvælastofnun. Auk þessa leggur Landgræðslan rækt við gerð umsagna um skipulag sveitarfélaga og framkvæmda, enda er þar um að ræða ráðstöfun á landi sem brýnt er að hafi sem minnst neikvæð umhverfisáhrif í för með sér. 

Landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt

Landgræðslan vinnur skv. samningi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að ráðgjöf og eftirliti með landnýtingu þátttakenda í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Unnið er eftir ákvæðum reglugerðar 511/2018 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Landgræðslan metur landnýtingu og ástand beitarlands þeirra sem sækja um þátttöku. Ástand lands er metið  skv. viðmiðum í viðauka 1 í reglugerð 511/2018 en þar er tilgreint að meta skuli beitarland eftir ástandsskala sem lýst er í ritinu Sauðfjárhagar sem Landgræðslan gaf út árið 2010.

Landgræðslan sinnir einnig úttektum á nýjum umsækjendum, eftirliti með ástandi beitilands og eftirliti með þeim landbóta- og landnýtingaráætlunum sem í gildi eru. Einnig sinnir starfsfólk Landgræðslunnar ráðgjöf um landnýtingu og landbætur þar sem þess er óskað. Árið 2021 voru um 1.700 þátttakendur í verkefninu, þar af eru um 300 aðilar sem standa að samtals 25 landbótaáætlunum. 

GróLind

GróLind er samstarfsverkefni Landgræðslunnar, Bændasamtaka Íslands og Matvælaráðuneytisins. Ein af megináherslum verkefnisins er að koma upp vöktun á gróður- og jarðvegsauðlindum landsins. Útsetning vöktunarreita hófst árið 2019 og með þeim 172 reitum sem lagðir voru út sumarið 2021 eru vöktunarreitir GróLindar orðnir 399 talsins. Stefnt er að því að setja upp rösklega 1000 vöktunarreiti um allt land fyrir lok árs 2024.  

Gott samstarf og samskipti við hagsmunaaðila er einn af lykilþáttunum í starfi GróLindar. Með það fyrir augum var ákveðið að leyfa áhugasömum að taka þátt í vöktun undir heitinu Landvöktun – Lykillinn að betra landi. Verkefnið er lýðvísindaverkefni og byggir á sömu hugmyndafræði og önnur vöktun GróLindar. Á árinu 2021 var stofnaður prófunarhópur sem hafði það að markmiði að prófa vöktunaraðferðirnar og snjallforrit sem notuð eru við innsetningu gagna. Hópurinn samanstóð af 11 áhugasömum sauðfjárbændum um land allt og einu sveitarfélagi. Samstarf prófunarhóps og starfsfólks GróLindar gekk afar vel og útkoman var betra verkefni. Á árinu 2022 verður verkefnið formlega stofnsett þar sem allir sem hafa áhuga geta tekið þátt.  

Sumarið 2021 héldu rannsóknir á atferli sauðfjár í sumarhögum áfram, en 87 lambær frá öllum landshornum gengu um sumarhagana með GPS hálsólar. Gögnin sem fást úr ólunum munu nýtast til ýmissa rannsókna, s.s. á því hvernig sauðfé nýtir beitarlönd sín og hvernig nýtingin breytist m.a. eftir ástandi, veðurfari og árstíðum. 

Á árinu var verkefnið einnig kynnt á ýmsum stöðum s.s. með fyrirlestrum, í fjölmiðlum og á fundum. 

Grólind⤏

 

Hagagæði

Árið 2021 var fimmta starfsár Hagagæða, samstarfsverkefnis Landgræðslunnar og Félags Hrossabænda um landnýtingu og úttektir hrossahaga. Landgræðslan hefur umsjón með Hagagæðum og annast úttektir beitilands hrossa. Verkefnið snýst um að hrossabændur og aðrir sem halda hross geti fengið formlega staðfest að landnýting þeirra sé sjálfbær, enda standist notkun beitarlandsins sett viðmið. Við úttektir á beitarlandi er stuðst við ákveðnar vinnureglur og viðmið við mat á landinu.

Árið 2021 stóðust 48 hrossabú úttektarkröfur Hagagæða, eða allir þátttakendur í verkefninu. Þá var einnig unnið að fleiri verkefnum um hrossabeit, t.d. ráðgjöf til hestamannafélaga um nýtingu beitarhólfa og vettvangsskoðunum vegna ábendinga um ósjálfbæra landnýtingu.  

Landgræðsluverðlaun 2022

Sjálfbær landnýting

Sigríður og Viðar á Kaldbak hljóta landgræðsluverðlaun 2022.

Sigríður Heiðmundsdóttir og Viðar Steinarsson tóku við búskap á Kaldbak á Rangárvöllum árið 1980 af foreldrum Sigríðar og hafa unnið að uppgræðslu á jörðinni síðan. Svæði sem áður voru ógróinn sandur eru nú meira og minna uppgróin og ekki marga ógróna bletti að finna á jörð þeirra í dag.

 Þau byrjuðu í bændaskógrækt árið 1988 og hafa grætt upp og gróðursett tré í tugi hektara bæði á Kaldbak og í Innra-nesi í Bolholti og þau hafa verið ötulir liðsmenn í verkefninu Bændur græða landið frá 1997.

 Sigríður og Viðar tóku við jörðinni Þingskálum sem liggur að Kaldbak árið 2018 og hafa haldið áfram með uppgræðslustarfið sem fyrri ábúendur hófu.

 Sigríður og Viðar hafa tekið þátt í starfi Skógræktarfélags Rangæinga síðan það var endurvakið um 1985. Sigríður var formaður félagsins frá 2002-2016, tók sér hlé og er nú aftur formaður frá 2019.

Meðal verkefna á vegum Skógræktarfélagsins sem þau hafa tekið þátt í er Bolholtsskógur á Rangárvöllum, Aldamótaskógur við Hellu og Kolviðarskógar á Geitasandi. En Sigríður hefur auk þess sem formaður komið að starfi félagsins á öðrum svæðum í sýslunni.

Fjölskyldan á Kaldbak tók þátt í gróðursetningu í Bolholti frá upphafi skógræktar þar um 1990. Klara móðir Sigríðar vann þar við gróðursetningu í mörg ár. Sigríður og Viðar hafa haft umsjón skóginum síðan Sigríður varð formaður og m.a. gróðursett, borið á, lagað slóða og stíga og bætt aðgengi í skóginum.

Sigríður hefur sem formaður Skógræktarfélagsins séð um gróðursetningu í Kolviðarskóga á Geitasandi og þar hafa Sigríður og Viðar og dætur þeirra gróðursett í  stóran hluta af því sem búið er að gróðursetja í svæðið.

Sigríður og Viðar eru svo sannarlega vel að landgræðsluverðlaununum 2022 komin.

 Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands hljóta landgræðsluverðlaunin árið 2022.

Markmið Landverndar er verndun náttúru og umhverfis á Íslandi, með langtíma hag okkar og komandi kynslóða að leiðarljósi. Þau eru einnig í takti við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og verkefni og aðgerðir Landverndar vinna að því að uppfylla heimsmarkmiðin.

Fræðslustarf Landverndar hefur verið gríðarlega öflugt og hefur haft áhrif á stóran hluta ungu kynslóðarinnar á Íslandi. Grænfánaverkefnið, vistheimt með skólum, umhverfisfréttafólk, hreinsum Ísland, öndum léttar, matarsóun og loftslagsvernd í verki svo einhver séu nefnd.

Landvernd hefur einnig gefið út fjölda fræðslurita, nú nýlega samantekt um beitarmál.  

Kolviður er samstarfsverkefni Landverndar og Skógræktarfélags Íslands. Fyrsti Kolviðarskógurinn er á Geitasandi hér á Rangárvöllum á landi Landgræðslunnar, svæðið hefur verið stækkað og er nú rúmlega 300 ha. (Eins og fram hefur komið hefur fjölskyldan á Kaldbak, landgræðsluverðlauna-hafarnir, séð um útplöntun trjánna á stórum hluta fyrir Kolvið).

Landvernd hefur beitt sér í loftslagsmálum með verkefninu Öndum léttar. Handbókin Öndum léttar styður sveitarfélög sem hyggjast gera kolefnisbókhald og aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. 

Græðum Ísland er verkefni sem sett var af stað 2017 og er hugsað fyrir hópa og einstaklinga sem vilja leggja sitt af mörkum í sjálfboðavinnu til að bæta gróður- og jarðvegsauðlindina og ásýnd landsins. Markmið verkefnisins tengjast m.a. náttúruferðamennsku, vistheimt, auknum menningartengslum Íslands og annarra landa og almennri vitundarvakningu um gróðurvernd. (Græðum Ísland þekkja flestir sem einkennisorð forvera míns Sveins Runólfssonar en hann er verndari verkefnisins). Verkefnið er unnið í samstarfi við Landgræðsluna og Hekluskógaverkefnið.

Vistheimt með skólum er annað verkefni sem Landvernd vinnur í samstarfi við Landgræðsluna. Verkefnið beinir sjónum nemenda að endurheimt náttúrulegra gæða og mikilvægi hennar fyrir gróður og jarðveg, líffræðilega fjölbreytni og baráttuna við loftslagshamfarir.

Að lokum er rétt að nefna þann þátt í starfi Landverndar sem er ómetanlegur fyrir náttúru Íslands og komandi kynslóðir. Landvernd tekur virkan þátt í stefnumótun í umhverfismálum með gerð umsagna um fjölda þingmála, skipulagsmála og framkvæmda bæði á vegum einkaaðila og hins opinbera.

Landgræðslan og Landvernd hafa átt farsælt samstarf á fjölmörgum sviðum allt frá stofnun samtakanna árið 1969 með von um að samstarfið haldi áfram og að Landvernd eflist í sínu starfi um ókomna tíð.  

!

Ársskýrsla 2021

  • Ávarp landgræðslustjóra
  • Ávarp matvælaráðherra
  • Fróðleikskorn úr starfi
  • Vörður
  • Rekstraryfirlit
  • Vernd og endurheimt vistkerfa
  • Þurrlendisvistkerfi
  • Votlendisvistkerfi
  • Samstarf um vernd og endurheimt vistkerfa

  • Jarðvegur og loftslag

  • Hringrásir og nýsköpun

  • Sjálfbær landnýting
  • Samstarf um sjálfbæra landnýtingu
  • Landgræðsluverðlaun 2022