Ársskýrsla 2019

Ársskýrsla 2019

"
  • Vörður
  • Fylgt úr hlaði
  • Landgræðsluáætlun
  • Rekstraryfirlit
  • Stöðugildi
  • Sjálfgræðsla birkis og endurheimt vistkerfa
  • Sjálfbær landnýting
  • Atferli sauðfjár
  • Bætt landnýting í þágu loftslagsmála
  • Votlendi sem kolefnisforðabúr
  • Svartvatn gerir Hólasand grænan
  • ASCENT-Fagþekking í gerð göngustíga og áningarstaða
  • Ársfundur 2020

Vörður á vegi Landgræðslunnar

Janúar/febrúar
Á fundi sviðsstjóra var rætt um samstarf við Skaftárhrepp um að greina möguleika á endurheimt vistkerfa og nytjaskógrækt innan landslagsheilda . Um er að ræða hluta af nýju aðalskipulagi hreppsins.

Nýtt skipulag og skipurit tók gildi frá og með 1. febrúar 2019.

Mars/apríl
Framleiðsla á baunagrasi að hefjast í Gunnarsholti. Til voru 4-6 þúsund baunagrasplöntur sem voru ræktaðar 2018.

Aðgerðum í Víkurfjöru lokið að þessu sinni. Rúllur voru settar í fjörukambinn í þeim tilgangi að draga úr rofi og sandfoki inn í byggðina.

Maí/júní
Rannsóknastefna fyrir Landgræðsluna var samþykkt í maímánuði.

Árni Bragason, landgræðslustjóri sagði í samtali við Rúv í júní, að landið væri enn að tapa jarðvegi og því miður væri ekki hlustað á fagmenn. Hann sagði að nóg væri til af grasi. Hægt væri að vera með miklu stærri fjárstofn ef beitt væri á láglendi.

Júlí
Ný aðgerðaáætlun “Bætt landýting í þágu loftslagsmála” var kynnt í júlí. Megináhersla er lögð á að aukin kolefnisbinding í jarðvegi og gróðri stuðli einnig að náttúruvernd og endurheimt lífríkis og að aðgerðir á röskuðu landi, þar sem kolefni er enn að tapast úr jarðvegi, verði settar í forgang.

Ágúst
Daði Lange Friðriksson, héraðs- fulltrúi Landgræðslunnar á Norður landi eystra sagði í samtali við Rúv að svartvatnið væri góður áburður, í því væru þvagefni sem séu mjög góð áburðarefni. Þá hafi þetta hafi mikla þýðingu fyrir Landgræðsluna því með því að nota svartvatnið á Hólasandi minnki kolefnissporið þar sem hætt verði að nota innfluttan áburð. Með þessu sé verið að nýta það sem fyrir er á svæðinu.

Landbúnaðarráðherrar Norðurlandanna funduðu um loftslagsmál í ágúst í Reykjavík og hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á landbúnað og skógrækt á Norðurlöndum. Þeir komu svo í Gunnarsholt og plöntuðu trjám til að kolefnisjafna ferð sína til Íslands.

September
Landgræðslan og Olís stóðu að söfnun birkifræs um allt land. Nokkrar stöðvar Olís tóku við fræi sem var síðan flutt í Gunnarsholt, þurrkað og sett í kæli.

Melskurður gekk mjög vel sunnanlands en melurinn var ekki skurðarhæfur fyrir norðan.

Október/nóvember
Í nóvember var lögð fram tillaga til þingsályktunar á Alþingi um þjóðarátak í landgræðslu. Þar kemur fram að með samstarfi ýmissa aðila eigi að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu.

Orkugerðin gaf Land- græðslunni 100 tonn af kjötmjöli til uppgræðslu.

Desember
Landgræðsluskólinn verður frá og með áramótum undir hatti UNESCO í gegnum Þekkingarmiðstöðina GRÓ sem heldur utan um skólana fjóra, Landgræðslu-, Sjávarútvegs-, Jarðhita- og Jafnréttisskólann.

Fylgt úr hlaði

Í ágúst 2019 kom út á vegum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), skýrsla um loftslagsbreytingar og landnotkun (Climate Change and Land). Skýrslan dregur upp dökka mynd af áhrifum loftslagsbreytinga á fæðuöryggi og sýnir að ósjálfbær landnýting og landeyðing af hennar völdum valda mikilli losun kolefnis og koma í veg fyrir kolefnisbindingu. Skýrslan er unnin af hundruðum vísindafólks og byggir á þúsundum rannsókna um allan heim.

Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg hefur vakið almenning um allan heim til vitundar um að engan tíma má missa og að beita þarf öllum tiltækum ráðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að binda kolefni í gróðri og jarðvegi. Mikill meirihluti landsmanna gerir sér grein fyrir ástandinu og villl vinna með okkur að því að bæta land og byggja upp. Enn er þó efasemdarfólk sem neitar að horfast í augu við staðreyndir og niðurstöður vísindafólks.

Í okkar fámenna en ríka landi er enn langt í land með að nægar upplýsingar liggi fyrir um ástand lands. Stór skref eru þó stigin þessi árin með öflugum samstarfsverkefnum þar sem gróðurauðlindin er kortlögð og kolefni í jarðvegi er mælt.

Nýjar skuldbindingar í loftslagsmálum sem stjórnvöld hafa undirgengist í samstarfi við nágrannalönd okkar kalla á aðra og nákvæmari skráningu aðgerða og öflun grunngagna sem ekki hefur verið safnað fyrr á Íslandi.

Nú er að vaxa upp á Skeiðarársandi stærsti samfelldi birkiskógur landsins og þar sést vel hversu öflug landgræðsluplanta birkið er. Víða eru möguleikar á að nýta sér mátt birkisins. Til að virkja vaxandi áhuga almennings stóð Landgræðslan fyrir landssöfnun á birkifræi í samstarfi við Olís og Hekluskóga. Þrátt fyrir fremur slaka fræsetu á birkinu á árinu 2019 tókst þó að safna miklu magni af fræi víða um land.

Fræinu verður ýmist sáð beint eða framleiddar plöntur til gróðursetningar í viðkomandi landshlutum. Landgræðslan vonast til að birkifræsöfnun verði hér eftir árviss viðburður.
Landgræðslan, Landvernd og Landgræðsluskólinn stóðu fyrir málstofu á Arctic Circle í október um þátttökunálgarnir í umhverfismálum.

Mikilvægt er að allir hjálpist að við þau stóru verkefni sem við blasa í umhverfis og loftslagsmálum.

Landgræðslan kom einnig að viðburði í Skálholti „The Faith for Earth Initiative“ í samstarfi við Þjóðkirkjuna og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hvernig getum við öll unnið saman að umhverfis- og loftslagsmálum.

Hægt gengur að fá landeigendur til liðs við okkur til að endurheimta votlendi. Stór svæði framræsts lands á Íslandi eru ekki notuð til landbúnaðar. Á árinu tókst þó í fyrsta sinn að endurheimta meira land en ræst var fram.

Á árinu kvöddum við með þakklæti reynda starfsmenn sem létu af störfum vegna aldurs og við tókum á móti ungu fólki í þeirra stað. Starfsfólk Landgræðslunnar er öflugur hópur sem er tilbúinn til að takast á við áskoranir í loftslagsmálum og önnur ný verkefni sem okkur hafa verið falin.

Árni Bragason, landgræðslustjóri

Landgræðsluáætlun

Endurheimt þurrlendis

Samkvæmt lögum um landgræðslu nr. 155/2018 skal vinna landgræðsluáætlun sem gildir til 10 ára í senn. Í áætluninni skal kveðið á um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda í landgræðslu með hliðsjón af markmiðum laganna. Verkefnisstjórn, skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra árið 2019, heldur utan um gerð áætlunarinnar.

Í stjórninni sitja: Árni Bragason, Ása L. Aradóttir, Margrét H. Guðsteinsdóttir, Oddný S. Valsdóttir og Tryggvi Felixson. Megin viðfangsefni áætlunarinnar verða: a) hvernig skuli stuðla að framförum í mati á jarðvegsvernd, b) hvernig gæði landsins séu best varðveitt, c) hvernig nýting lands geti sem best stutt við atvinnu og byggðir í landinu, í takt við markmið stjórnvalda, d) hvernig best sé að efla og endurheimta röskuð vistkerfi og e) setja fram tillögur að breytingum á nýtingu lands þar sem það á við (t.d. friðun fyrir ákveðinni landnýtingu o.s.frv.).

Landgræðsluáætlun – drög að lýsingu ⤏

 

Rekstraryfirlit 2019

Tekjur 2019 2018
Framlag ríkissjóðs 836.948 724.678
Sértekjur 200.732 218.218
Aðrar rekstrartekjur 5.269 4.916
1.042.950 947.813
Laun 566.662 558.847
Rekstrarkostnaður 155.245 167.316
Aðkeypt þjónusta 162.196 144.023
Rekstrarvörur 83.745 72.404
Húsnæði 62.619 52.728
Ferðir og fundir 46.901 48.084
Bifreiðar og vélar 32.186 31.725
1.109.554 1.075.127
Rekstrarniðurstaða -66.604 -127.314

Ársreikningar – A hluti ríkissjóðs ⤏

 

Stöðugildi 2019

Meðalfjöldi stöðugilda á árinu 2019 52.15
Fjöldi starfsmanna umsíðustu áramót 57
Meðal lífaldur  48 ár
Meðal starfsaldur 10.7 ár
Fjöldi karla 31
Fjöldi kvenna 26

Sjálfgræðsla birkis og endurheimt vistkerfa

Birkiskogur.is

Birki er eina íslenska trjátegundin sem myndar náttúrulega skóga og gildi þeirra fyrir okkur er margvíslegt. Birkivistkerfið er eitt þeirra vistkerfa sem mikilvægt er að endurheimta og þar er lykilþáttur að ýta undir sjálfgræðslu þess.

Með því vinnum við með náttúrulegum ferlum og þar sem vel tekst til getur það hraðað aukinni útbreiðslu þess. Við endurheimt birkiskóga þarf að vera til staðar: fræuppsprettur birkis og næg örugg fræset á svæðinu fyrir það. Fræuppsprettur geta komið frá nálægum birkiskógum eða að við gróðursetjum eða sáum birki í lundi sem síðar mynda uppsprettu fræs er plönturnar hafa vaxið upp. Aðrir þættir hafa einnig áhrif, s.s. sauðfjárbeit, afrán skordýra, landslag og ríkjandi veðurfar. Með því að taka alla þessa þætti inn þegar endurheimt er skipulögð er unnt að nýta sjálfbræðslu birkis til að auka árangur aðgerða.

Meðal aðgerða sem við getum notað til að stuðla að sjálfgræðslu birkis eru: 1) markviss beitarfriðun á svæðum með góðar fræuppsprettur og góð fræset, 2) markviss sáning eða plöntun á svæðum sem bjóða upp á góð fræset fyrir birkifræ en vantar fræuppsprettur, og 3) markviss uppgræðsla á svæðum nálægt fræuppsprettum til að auka líkur á spírun birkifræs vegna bættra fræseta. Með markvissum aðgerðum er unnt að lágmarka kostnað við endurheimt birkiskóga.

Sjálfbær landnýting

Nýting lífrænna efna til uppgræðslu

GróLind er samstarfsverkefni Landssamtaka sauðfjárbænda, Bændasamtaka Íslands, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Landgræðslunnar, sem hefur yfirumsjón með verkefninu. Verkefninu er ætlað að skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins, og að þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu auðlindanna. Verkefnið er í þróun og á vormánuðum voru haldnir 17 opnir kynninga– og samráðsfundir víðsvegar um landið. Um sumarið hófst vöktun þegar 76 reitir voru lagðir út víðsvegar um landið, en stefnt er að því að setja upp rösklega 1000 vöktunarreiti á næstu fjórum árum.

Á árinu var einnig unnið að stöðumati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins byggt á vistgerðaflokkun Náttúrufræðistofnunar Íslands og rofkortlagningu Rala og Landgræðslunnar. Til að hægt sé að tengja landnýtingu við ástand auðlindanna er nauðsynlegt að vita hvernig land er nýtt.

Árið 2019 var því unnið að því að kortleggja mörk úthaga og afrétta og núverandi nýtingu þeirra til sauðfjárbeitar. Vinnunni við stöðumatið og kortlagninguna mun ljúka fyrri part árs 2020.

Grólind.is ⤏

 

Rannsókn á atferli sauðfjár

Birkiskogur.is

Rannsókn á atferli sauðfjár í sumarhögum hélt áfram sumarið 2019. Farið var í samstarf við 11 bændur víðsvegar um land og fékk hver bóndi 10 GPS tæki. Tækin voru sett á jafnmargar lambær sem skráðu staðsetningu ánna á sex klst. fresti yfir þann tíma sem þær voru í sumarhögum. Á seinustu tveimur árum hefur safnast upp gífurlegt magn af gögnum sem munu gefa innsýn inn í hvernig gróðurlendi sauðfé sækir helst í, hversu stór svæði það nýtir og hvernig þessi þættir breytast m.a. eftir tíma, veðri, landslagi og gróðurfari.

 

Bætt landnýting í þágu loftslagsmála

LULUCF

Í júlí 2019 gaf stjórnarráð Íslands út skýrsluna Bætt landnýting í þágu loftslagsmála. Skýrslan er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og lýsir markmiðum Íslands til ársins 2040 og áætluðum vörðum og aðgerðum er varða átak í kolefnisbindingu á árabilinu 2019 til og með 2022.

Í áætluninni er kveðið á um eflingu landgræðslu og nýskógræktar til kolefnisbindingar, vernd votlendis og átak í endurheimt votlendis. Þá er fjallað um samstarf við sauðfjárbændur um kolefnisbindingu og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Áætlað er að þessar aðgerðir muni skila ríflega tvöföldun í loftslagsávinningi á árinu 2022 m.v. meðaltal áranna 2016 til 2018 og flatarmál nýrra svæða sem tekin eru til landgræðslu og skógræktar árlega aukist úr ríflega 7.000 ha m.v. meðaltal áranna 2016 til 2018 í 14.720 hektara árið 2022.

Svo þetta verkefni gangi er víðtækt samstarf nauðsynlegt og sauðfjárbændur leika þar lykilhlutverk.

Votlendi sem kolefnisforðabúr

Samvinna

Votlendi geyma verulegan hluta kolefnisforða jarðar. Þau eru mikilvæg búsvæði plantna, fugla, fiska og smádýra, bæta vatnsbúskap, CO2, CH4 jarðveg og blaðgrænu og geta jafnað vatnsrennsli og þannig minnkað hættu á flóðum, sveiflum í vatnsrennsli og jarðvegsrofi. Því er mikilvægt að vernda votlendi og endurheimta röskuð votlendi sem ekki er verið að nýta.

Ýmis konar votlendi þekja um fimmtung gróins land á Íslandi og hefur stórum hluta þess verið raskað. Á mörgum svæðum hefur dregið úr notkun á framræstu landi. Til að afla þekkingar á ferlum og virkni votlendisvistkerfa í fjölbreyttu ástandi og meta árangur endurheimtar hóf stofnunin vöktunarverkefni árið 2017 í samstarfi við NÍ, LbhÍ og HÍ. Þá var lögð áhersla á að meta upphafsástand valdra raskaðra svæða sem voru endurheimt 2019. Settir voru upp fastir vöktunarreitir innan algengustu gróðursamfélaga svæðanna til að mæla breytingar í kjölfar endur- heimtarinnar.

Innan hvers vöktunarreits hafa farið fram mælingar á upphafsástandi gróðurs og jarðvegs ásamt reglulegum mæliferðum þar sem mælingar á grunnvatnshæð, flæði CO2 og CH4 úr jarðvegi, blaðgrænustuðli gróðurs, hafa verið gerðar.

Svartvatn gerir Hólasand grænan

Samvinna

Undirbúningi verkefnis um nýtingu svartvatns til uppgræðslu á Hólasandi er nánast lokið. Samstarfssamningur á milli Skútustaðahrepps og Landgræðslunnar liggur fyrir um framkvæmd verkefnisins og lokið verður við byggingu safntanks fyrir svartvatn á Hólasandi vorið 2020. Þá hefst söfnun svartvatns í tankinn og nýting þess hefst fljótlega eftir það.

Verkefnið hefur tvíþætt markmið, að draga úr magni lífræns úrgangs sem við núverandi aðstæður endar í Mývatni og að nýta úrganginn sem auðlind við uppgræðslu Hólasands sem er einungis í um 15 km fjarlægð frá Mývatni. Grunnurinn að því að verkefnið gangi upp er að rekstraraðilar umhverfis Mývatn skipti út hefðbundnum klósettum fyrir s.k. vacuum klósett sem nota miklu minna vatn og aðgreini það sem úr þeim kemur (svartvatn) frá öðru frárennsli t.d. frá sturtum, baðkörum og vöskum (grávatn). Svartvatnið er því ekkert annað en klósettúrgangur ásamt niðursturtuðu vatni. Verkefnið er samvinnuverkefni margra aðila, þ.m.t. rekstraraðila á svæðinu, sveitarfélagsins Skútustaðahrepps og ríkisins.

ASCENT - Fagþekking í gerð göngustíga og áningarstaða

Landgræðsluverðlaun

þátttöku í þriggja ára fjölþjóðlegu verkefni, styrktu af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPA). Verkefnið kallaðist ASCENT eða Apply Skills and Conserve our Enviroment with New Tools, og fól í sér að efla fagþekkingu um gerð göngustíga og áningarstaða.

Verkefnið fól í sér rannsókn áhrifum af óheftum aðgangi náttúrustöðum, þörf fyrir endurheimtaraðgerðir og hvernig draga má úr skemmdum vegna átroðnings. Gerðar voru stjórnunaráætlanir á fimm völdum náttúrustöðum með viðeigandi aðgerðaráætlun sem byggðu á bestu mögulegu þekkingu í þátttökulöndunum. Ástandsmat var gert sem og tilraunir með notkun mismunandi fjarkönnunnargagna og hugbúnaða. Búið var til námskeið og námskeiðaraðir í hönnun, gerð og viðhaldi gönguleiða. Jafnframt kynningarefni sem miðar vitundarvakningu um mikilvægi góðra og vandaðra gönguleiða við náttúruvernd.

Þá eru í mótun leiðbeiningar um gerð gönguleiða sem byggja m. a. á afrakstri ASCENT. Að óbreyttu koma leiðbeiningarnar út um mitt ár.

!

Ársskýrsla 2019

  • Vörður
  • Fylgt úr hlaði
  • Landgræðsluáætlun
  • Rekstraryfirlit
  • Stöðugildi
  • Sjálfgræðsla birkis og endurheimt vistkerfa
  • Sjálfbær landnýting
  • Atferli sauðfjár
  • Bætt landnýting í þágu loftslagsmála
  • Votlendi sem kolefnisforðabúr
  • Svartvatn gerir Hólasand grænan
  • ASCENT-Fagþekking í gerð göngustíga og áningarstaða
  • Ársfundur 2020