Ársskýrsla 2020

Ársskýrsla 2020

"
  • Lykiltölur
  • Vörður
  • Rekstraryfirlit
  • Ávarp landgræðslustjóra
  • Ávarp umhverfisráðherra
  • Endurheimt þurrlendis
  • Endurheimt votlendis
  • Nýting lífrænna efna
  • Útbreiðsla birkiskóga
  • Kolefnisbókhald
  • GróLind
  • Landupplýsingar
  • Faith for Nature
  • Samstarf um vernd og endurheimt
  • Samstarf um sjálfbæra landnýtingu
  • Vernd og endurheimt
  • Sjálfbær landnýting
  • Landgræðsluverðlaun 2021

Lykiltölur Landgræðslunnar

km² Landgræðslusvæða og uppgræðslusvæða

verkefni voru styrkt af Landbótasjóði

beitarfriðaðir ha innan girðinga

metrar af bakkavörnum gegn landbroti voru byggðir

km² var flatarmál aðgerða 2020

metrar af varnargörðum voru styrktir og lagaðir

virkir þáttakendur í verkefninu "Bændur græða landið"

tonna aukning á notkun lífræns áburðar frá 2019

hektarar votlendis endurheimtir af Landgræðslunni og Votlendissjóði

tonna aukning á notkun tilbúins áburðar frá 2019

þáttakendur í verkefni um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu

%

allra reikninga ársins 2020 komu á rafrænu formi

ær báru GPS staðsetningartæki víða um landið

Vörður á vegi Landgræðslunnar

Vörður á vegi Landgræðslunnar

Ávarp landgræðslustjóra

Ávarp umhverfisráðherra

Rekstraryfirlit 2020

Tekjur 2020 2019
Framlag ríkissjóðs 1.054.514 836.948
Sértekjur 207.056 200.732
Aðrar rekstrartekjur 5.518 5.269
1.267.088 1.042.950
Laun 619.080 566.662
Rekstrarkostnaður 267.008 155.245
Aðkeypt þjónusta 175.323 162.196
Rekstrarvörur 82.038 83.745
Húsnæði 75.238 62.619
Ferðir og fundir 38.547 46.901
Bifreiðar og vélar 29.495 32.186
1.286.729 1.109.554
Rekstrarniðurstaða -19.641 -66.604

Endurheimt þurrlendis

Endurheimt þurrlendis

Landgræðslan vinnur endurheimt þurrlendisvistkerfa eftir fjölmörgum leiðum, oftast í samstarfi við bændur, sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Unnið var að sáningu og styrkingu gróðurs á alls um 17 þúsund hekturum auk þess sem tæplega einni milljón trjáa var plantað í landgræðslusvæði í samstarfi við Skógræktina. Einnig varð veruleg aukning á nýtingu lífræns áburðar til landgræðslu frá fyrri árum. Því má segja að breyting sé að eiga sér stað í aðferðum við endurheimt vistkerfa með áherslu á endurheimt víðikjarrs og birkiskóga og nýtingu lífræns áburðar í anda hringrásarhagkerfis.

Landgræðslan hefur umsjón með um 140 landgræðslusvæðum og eru um 100 þeirra friðuð fyrir búfjárbeit. Friðun fyrir búfjárbeit eykur árangur landgræðsluaðgerða og hefur áhrif á tegundasamsetningu þess gróðurs sem nemur land. Í tengslum við þessa vinnu er stofnunin með um 800 kílómetra af girðingum í árlegu viðhaldi og endurnýjun eftir þörfum.

Endurheimt votlendis

Votlendi

Í samstarfi við landeigendur vann Landgræðslan að endurheimt votlendis á sex svæðum á alls 131 ha svæði. Þau sex svæði sem framkvæmt var á árið 2020 eru í eftirtöldum sveitarfélögum: Snæfellsbæ (Hnausar, Hamraendar og Votilækur), Skagaströnd (Ásbúðir), Kjós (Kiðafell) og Svalbarðshreppi (Laxárdalur). Hnausar og Hamraendar eru samliggjandi jarðir og endurheimt þar unnin sem eitt heildstætt svæði út frá landslagi og vatnasviði og er þetta stærsta votlendissvæði af þessari gerð sem hefur verið endurheimt hingað til.

Unnið var að kortlagningu og áætlanagerð fyrir endurheimt votlendis í samstarfi við Votlendissjóð. Á grundvelli þessa samstarfs var á árinu unnin endurheimt á um það bil 96 ha landssvæði.

Unnið var með Þjóðkirkjunni um greiningu á möguleikum til endurheimtar á jörðum í eigu kirkjunnar. Unnin var verkáætlun og hún samþykkt á kirkjuþingi 2020-2021. Verkefnið er í vinnslu og stefnt er að fyrstu úttekt á forgangssvæðum á kirkjujörðum á næsta ári.

Nýting lífrænna efna til uppgræðslu

Nýting lífrænna efna til uppgræðslu

Á undanförnum árum hefur markvisst verið lögð aukin áhersla á nýtingu lífrænna efna til uppgræðslu, en lífræn efni henta markmiðum endurheimtar vistkerfa mjög vel. Notkun lífrænna efna af ýmsu tagi hefur margþætt jákvæð umhverfisáhrif umfram uppgræðsluþáttinn, því með notkun þeirra er dregið úr óvistvænni förgun og sóun verðmætra næringarefna sem og að hún veldur minnkandi þörf á innflutningi tilbúins áburðar.

Það var því mjög ánægjuleg niðurstaða að sjá að frá árinu 2009 hefur notkun lífrænna efna aukist jafnt og þétt. Það er ekki eingöngu í verkefnum Landgræðslunnar, heldur einnig í ýmsum samstarfsverkefnum sem Landgræðslan kemur að.

Til þess að fá fram mynd af þessum breytingum, var tekin saman skýrsla um notkun lífrænna efna til landgræðslu frá 2009 til 2019 og efnin flokkuð eftir tegundum. Þar sem efnin eru af ýmsum toga og þar með mis innihaldsrík af næringarefnum, var magn niturs (N) í hverri tegund reiknað sérstaklega til að gera gögnin samanburðarhæf. Í ljós kom að magn niturs sem kom úr lífrænum úrgangi árið 2009 var innan við 2% (um 8 tonn) af heildarnotkun áburðar Landgræðslunnar og samstarfsverkefna. Ellefu árum síðar hafði notkunin margfaldast og, sé miðað við aðhvarfslínu, var komin í um 13% (um 100 tonn) af heildarnotkun áburðar 2019. Bráðabirgðatölur fyrir 2020 sýna að notkunin var svipuð og árið áður.

Magnús H. Jóhannsson 2020. Lífrænn úrgangur til landgræðslu síðustu 11ár 2009_2019 Landgræðslan 2020LR 8_2020.

Magnús H. Jóhannsson 2020. Lífrænn úrgangur til landgræðslu síðustu 11ár 2009_2019 Landgræðslan 2020LR 8_2020.

 

Lífrænn úrgangur til landgræðslu⤏

 

Útbreiðsla birkiskóga

Birkiskogur.is

Landgræðslan og Skógræktin tóku höndum saman haustið 2020 um að efla útbreiðslu birkiskóga á landinu og hvöttu þjóðina til að fara út og safna og sá birkifræi. Samstarfsaðilar í verkefninu voru: Bónus, Kópavogsbær, Landvernd, Lionshreyfingin, Prentmet Oddi, Skógræktarfélag Íslands, Skógræktarfélag Kópavogs og Terra. Verkefnið var kynnt í ýmsum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og hlaut mikla athygli og mikill fjöldi fólks tók þátt í því.

Fræsöfnunin byrjaði formlega á Bessastöðum á Degi íslenskrar náttúru þann 16. september þar sem forseti Íslands tók þátt í að safna fyrstu fræjunum. Fræsöfnun tókst almennt vel þó lítið fræ væri á Norður- og Austurlandi. Mest safnaðist á Suðvestur- og Suðurlandi. Til söfnunarstaða bárust um 275 kg af fræi og þar af var yfir 90 kg sáð strax um haustið. Afganginum verður sáð vorið 2021. Þar að auki mun verulegu magni hafa verið safnað og dreift beint og því ekki borist til söfnunarstaða.

Verkefnið Söfnun og sáning birkifræs er liður í stefnu Landgræðslunnar og stjórnvalda um að auka útbreiðslu birkis og stefnu Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa, enda er núverandi áratugur helgaður því markmiði. Verkefnið gefur einnig kost á því að efla almannaþáttöku í endurheimt birkivistkerfa og landgræðslustarfi. Ákveðið hefur verið að söfnun og dreifing birkifræs verði árlegur viðburður héðan í frá.

Vernd og endurheimt Íslenskra Birkiskóga

 

Birkiskogur.is

 

Loftslagsmál - Kolefnisbókhald

LULUCF

Landgræðslan hefur yfirumsjón með þeim hluta loftslagsbókhalds Íslands sem snýr að landnotkun og breytingum á henni. Þetta er svokallaður LULUCF hluti (Land Use, Land Use Change and Forestry). Í þessu felst skráning á allri landnotkun og árlegt eftirlit með breytingum á henni innan landflokka LULUCF sem eru skóglendi, ræktarland, graslendi, votlendi, byggð svæði og annað land.

Til viðbótar þarf Ísland, eins og önnur lönd sem hafa samþykkt Parísarsáttmálann, að geta gert grein fyrir bindingu og losun innan þessara landflokka. Fram til þessa hefur verið lögð áhersla á gagnaöflun varðandi skógrækt og landgræðslu, sem er undirflokkur graslendis, og eru upplýsingar fyrir þá landflokka í viðunandi ástandi en nokkuð vantar upp á að fullnægjandi upplýsingar séu fyrir hendi fyrir aðra landflokka.

Nú er unnið að því að bæta markvisst úr því skv. sérstakri úrbótaáætlun til þriggja ára. Sem liður í þeirri áætlun er breytt nálgun við mælingar. Hingað til hefur verið lögð áhersla á að mæla kolefnisforða og breytingar á honum með jarðvegs- og gróðursýnatökum sem hafa svo verið endurteknar með ákveðnu árabili. Í dag er hins vegar lögð áhersla á að mæla beina losun frá landi til viðbótar við hefðbundnar forðamælingar og er stefnt að slík vöktun verði framkvæmd um allt land, bæði af Landgræðslunni en einnig í samstarfi við heimamenn.

LULUCF

 

Loftslagsskýrsla Íslands 2020

 

GróLind

Samvinna

Árið 2020 gaf GróLind út stöðumat á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. Stöðumatið byggir á fyrirliggjandi gögnum og gefur grófa heildstæða mynd af ástandi auðlindanna. Samhliða því var gefið út fyrsta útgáfa beitarlandakorts sem sýnir mörk úthaga og afrétta fyrir sauðfé. Stöðumatið og beitarlandakortið var kynnt opinberlega um mitt ár og í kjölfarið var kortasjá GróLindar tekin í notkun þar sem þessi gögn eru aðgengileg. Í framtíðinni verður nýting annars búpenings en sauðfjár kortlögð og beitarlandakortið uppfært samhliða öðrum upplýsingum um landnýtingu. Sömuleiðis hófst á árinu samstarf GróLindar og Háskóla Íslands um kortlagningu á nýtingu villtra dýra og fugla á gróðurauðlindinni.

Eitt af meginverkefnum GróLindar er að setja upp vöktun á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. Sumarið 2020 voru lagðir út 150 vöktunarreitir víðsvegar um landið, en stefnt er að því að setja upp rösklega 1000 vöktunarreiti á næstu árum.

Sumarið 2020 héldu rannsóknir á atferli sauðfjár í sumarhögum áfram. Ljóst er að mjög miklar upplýsingar liggja nú þegar í þeim gögnum sem hafa safnast og munu þau m.a. gefa okkur innsýn í hvernig sauðfé nýtir beitarlönd sín og hvernig nýtingin breytist m.a. eftir ástandi og veðurfari.

Mikil áhersla er lögð á að vinna verkefnið í góðu samstarfi við landnotendur, vísindasamfélagið, einkafyrirtækja og opinberar stofnanir. Á árinu hefur verkefnið verið kynnt á ýmsum stöðum s.s. með fyrirlestrum, í fjölmiðlum og á fundum.

GróLind

Ársskýrsla

Stöðumat

Kortlagning beitarlanda

Kortavefsjá

 

Landupplýsingar

Grólind Ástandskort

Landgræðslan safnar umfangsmiklum landupplýsingagögnum, bæði tengdum eigin starfsemi en einnig um breytingar á landi og landnýtingu. Mikilvægt er að sem best sé haldið utan um slík gögn og að þau séu aðgengileg bæði starfsmönnum og almenningi eins og við á. Árið 2020 var stigið stórt skref í þessu skyni þegar stofnunin tók sérstakan vefþjón í notkun sem gjörbreytir öllum möguleikum við gagnaskráningar landupplýsinga í rauntíma, meðferð þeirra, úrvinnslu og miðlun. Ný jarðvegskort, bætt ástandskort, beitilönd sauðfjár, BGL svæði og svo mætti áfram telja. Stefnt er að því að gögn Landgræðslunnar verði aðgengileg almenningi innan þeirra marka sem reglur um slíkt leyfa.

Gagnvirkar kortavefsjár munu gegna lykilhlutverki við miðlun landupplýsingagagna Landgræðslunnar og munu gera störf stofnunarinnar síðustu 100 árin mun sýnilegri en nokkru sinni áður. Hér gildir gamla góða máltækið „myndir segja meira en 1000 orð“. Kortavefsjár verða einnig notaðar í ríkum mæli við vinnu því rauntímaskráningar gagna verða samtímis aðgengilegar samstafsfólki í vefsjám. Vefsíður er tengjast stærri verkefnum Landgræðslunnar hafa verið opnaðar. Gott dæmi um slíkt verkefni er GróLind en þar opnaði Landgræðslan sérvef ásamt kortavefsjá þar sem skoða má ástandsflokkun í ofanvarpi fyrir allt landið en einnig í þrívíddarlíkani.

Faith for Nature

Faith For Nature

Alþjóðlega ráðstefnan „Faith for Nature“ var haldin á netinu í lok október. Markmið ráðstefnunnar er að sameina ólíkar trúarstofnanir, lífsskoðunarfélög og trúarbrögð um allan heim til aðgerða til að bregðast við loftslagshamförum og veita loftslagsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna brautargengi. Á fimmta hundrað einstaklingar frá 58 löndum tóku þátt í ráðstefnunni.

Auk Landgræðslunnar stóðu að ráðstefnunni af hálfu Íslands bæði Þjóðkirkjan og félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Stjórnvöld studdu dyggilega við verkefnið og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, háskólar um allan heim sem og trúarsamtök tóku einnig þátt. Upplýsingar og samtöl má finna á www.faithfornature.org. Gert er ráð ráð fyrir að starfið haldi áfram á komandi árum og mun Landgræðslan taka þátt í því.

Faith for Nature⤏

 

Samstarfsverkefni tengd vernd og endurheimt vistkerfa

Samvinna

Landgræðslan vinnur að endurheimt vistkerfa með fjölmörgum aðilum svo sem Vegagerðinni, Landsvirkjun, Olís og sveitarfélögum þar sem markmiðið er að endurheimta þjónustu vistkerfa s.s. að skýla vegum og mannvirkjum fyrir sandfoki, binda kolefni úr andrúmslofti og endurheimta votlendi.

Samsstarfsverkefni tengd sjálfbærri landnýtingu

Samvinna

Loftslagsvænni landbúnaður

Landgræðslan tók þátt í undirbúningi og framkvæmd verkefnisins Loftslagsvænni landbúnaður sem er samvinnuverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Landssamtaka sauðfjárbænda, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og Ráðgjafarsmiðstöðvar landbúnaðarins. Verkefnið er hluti af framkvæmd aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum 2018-2030 og markmið þess er að leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda frá sauðfjárbúskap jafnframt því að auka kolefnisbindingu. Verkefnið hófst formlega 1. janúar 2020. Haldin voru námskeið um loftslagsmál, leiðir til að draga úr losun koltvísýrings og mögulegar mótvægisaðgerðir með skógrækt og endurheimt vistkerfa. Auglýst var eftir þátttakendum og voru 13 bú valdin til þátttöku.

Landnýtingarþáttur gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu

Landgræðslan vinnur skv. samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að ráðgjöf og eftirliti með landnýtingu þátttakenda í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Unnið er eftir ákvæðum reglugerðar 511/2018 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

Vernd og endurheimt

Rannsóknar og vöktunarverkefni

Áburðartilraun á Landmannaafrétti: Markmið verkefnisins er að kanna áhrif mismunandi áburðartegunda og friðunar á gróðurframvindu. Tilraunin er samstarfsverkefni Fjallskiladeildar Landmannaafréttar og Landgræðslunnar.

Áhrif loftslagsbreytinga á ertuyglu og áhrif hennar á lúpínu: Markmið verkefnisins voru annarsvegar að rannsaka áhrif loftlagsbreytinga á stofnstærðarþróun og útbreiðslu innlendra skordýra á alaskalúpínu, með ertuyglu sem tilviksrannsókn og hinsvegar að rannsaka áhrif skordýrabeitar á þrótt alaskalúpínu og trjátegunda, þar sem fræframleiðsla og ársvöxtur voru notuð sem mælikvarðar á þrótt plantna. Verkefnið var hluti af doktorsverkefni Brynju Hrafnkelsdóttur við LbhÍ.

Hagræn áhrif og loftslagsáhrif áburðarnotkunar (HagLoft): Heildarmarkmið verkefnisins er að öðlast skilning á loftslagsáhrifum áburðarnotkunar og tengja við hagræna þætti. Gert verður reiknilíkan sem reiknar út kolefnisspor mismunandi áburðartegunda (lífrænna jafnt sem ólífrænna) og setur í samhengi við innihald næringarefna, fjarlægðir á nýtingarstað, dreifingartækni, og reiknar auk þess út kostnað við nýtinguna. Verkefnið er unnið í samstarfi við Verkfræðistofuna EFLU.

Áhrif mismunandi framvindubrauta á jarðvegslíf – stökkmor og mítla: Markmið verkefnisins var að ákvarða framvindu jarðvegslífs í mismunandi uppgræðsluaðgerðum með sérstakri áherslu á landnámsferla jarðvegsdýra. Baunagras (Lathyrus japonicus) og nýting til landgræðslu: Markmið rannsókna á baunagrasi er að kanna hvort hægt sé að nýta baunagras til uppgræðslu, hvernig það sé best ræktað og gróðursett. Einnig hvernig því reiðir af og hvernig áhrif það hefur á annan gróður. Rannsóknir á nýtingu baunagrass hafa staðið í nokkur ár.

Hlutverk loðvíðis (Salix lanata) í framvindu: Markmið verkefnisins er að auka skilning okkar á hlutverki loðvíðis í íslenskum vistkerfum og meta hvort líta megi á hann sem lykiltegund og/eða vistmeitil (e: ecological engineer). Verkefnið er meistaraverkefni Vigdísar Freyju Helmutsdóttur.

Hvernig má þróa hagnýtan leiðarvísi fyrir val á tegundum til sáningar í vistheimt? Markmið verkefnisins er að gera tillögu um gerð handbókar fyrir framleiðslu íslenskra innlendra æðplantna fyrir endurheimt vistkerfa og náttúruvernd. Verkefnið er meistaraverkefni Courtney Brooks í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.

Landbót: Heildarmarkmið verkefnisins er að auka skilning á langtímaáhrifum mismunandi inngripa í uppgræðslu á þróun vistkerfa. Landbótin er langtímaverkefni sem hófst árið 1999 og misjafnt er eftir árum hvaða mælingar eru gerðar. Á árinu 2020 var sjálfgræðsla birkis skráð og landnám smárunna mælt í völdum tilraunareitum. Þá var unnið að því að hemja útbreiðslu lúpínu í tilrauninni.

Landnám birkis í frumframvindu og áhrif þess á vistkerfið: Markmið verkefnisins er að rannsaka landnám birkis í frumframvindu og áhrif þess á stefnu og hraða frekari gróðurframvindu á svæðinu. Verkefnið sem er samstarfsverkefni marga aðila er á Skeiðarársandi en hann er stærsti jökulsandur á Íslandi og þar hefur stórfellt birkilandnám átt sér stað á síðustu árum. Mörg nemendaverkefni, doktors- og meistaraverkefni, eru unnin innan þessa verkefnis.

LIBBIO – rannsóknir á einærri lúpínu (Lupinus mutabilis): Heildarmarkmið verkefnisins er að rannsaka hvort og hvernig megi nýta L. mutabilis til framleiðslu á lífmassa, próteini, olíu eða mjöli á jaðarsvæðum í Evrópu (e: marginal soils). Markmið rannsóknanna á Íslandi eru að athuga hvort þessa tegund megi nýta til uppgræðslu. Þátttakendur í verkefninu koma frá átta Evrópulöndum.

Lífrænn úrgangur til landgræðslu: Aukin áhersla er á nýtingu lífræns úrgangs til landgræðslu. Í því ljósi er mikilvægt fyrir Landgræðsluna að ná utan um nýtingu efnisins í verkefnum stofnunarinnar auk samstarfsverkefna. Þá fyrst er hægt að leggja línurnar um stefnu til framtíðar og meta hvernig Landgræðslan geti aukið nýtinguna með sem hagkvæmustum hætti. Einnig er mikilvægt að greina umhverfisáhrif aukinnar notkunar á lífrænum úrgangi til landgræðslu.

Nordic Phosphorus Platform (NPP): Verkefnið er samvinnuverkefni Norðurlandanna um bætta nýtingu fosfórs þar sem fulltrúar allra Norðurlandanna (utan Færeyja) hittast árlega til að bera saman bækur sínar um endurvinnslu og endurnýtingu fosfórs.

Landnám birkis á mismunandi undirlagi: Markmið verkefnisins er að gera samanburðarrannsókn á nýliðun, vexti og stofnvistfræði ungra birkistofna á tveimur svæðum á Suðurlandi, í brattri skriðu og á hrauni, með aðstæðum þar sem ólíkir þættir í jarðvegi eru takmarkandi og bera saman við niðurstöður sambærilegra rannsókna á Skeiðarársandi. Verkefnið er meistaraverkefni Benedikts Traustasonar við Háskóla Íslands.

Samlífi baunagrass og trjákenndra plantna í uppgræðslusvæði í Bolholti: Markmið verkefnisins er að afla þekkingar á áhrifum baunagrass á vöxt og lifun birkis, loðvíðis og gulvíðis. Sjálfgræðsla birkis á Rangárvöllum: Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á ferlum tengdum sjálfgræðslu birkis, einkum dreifingu og landnámi.

Svartvatn og uppgræðsla á Hólasandi: Markmið verkefnisins er að koma í veg fyrir að lífræn efni úr fráveitu Skútustaðahrepps endi í Mývatni en þess í stað verði nýtt til uppgræðslu á Hólasandi. Hugmyndin byggir á að aðgreina svartvatn (klósettúrgang) frá grávatni í fráveitukerfinu við Mývatn og nota svartvatnið til uppgræðslu. Hlutverk Landgræðslunnar er tvíþætt 1) að taka við svartvatni úr þró á Hólasandi og dreifa því til uppgræðslu og 2) að vakta framvindu gróðurs og nýtingu næringarefnanna.

Mælingar á gasflæði frá endurheimtu votlendi: Til að afla þekkingar á ferlum og virkni votlendisvistkerfa í fjölbreyttu ástandi og meta árangur endurheimtar hóf stofnunin vöktunarverkefni árið 2017 í samstarfi við NÍ, LbhÍ og HÍ. Þá var lögð áhersla á að meta upphafsástand valdra raskaðra svæða sem voru endurheimt 2019. Valin voru fjögur svæði og þar settir upp fastir vöktunarreitir til að mæla breytingar í kjölfar endurheimtarinnar. Nú hafa mælingar staðið yfir í heilt ár eftir að endurheimt var á svæðunum og grunnvatnsstaða hefur að jafnaði hækkað og losun gróðurhúsaloftegunda minnkað. Vísbendingar sjást um að miklu máli skiptir að vandað sé til verka við endurheimtarframkvæmdir svo árangur sé sem bestur.

Sjálfbær landnýting

Sjálfbær landnýting

Atferli sauðfjár í sumarhögum (GPS-kindur): Markmið verkefnisins er að kanna atferli sauðfjár í sumarhögum. Annarsvegar er skoðað í hvers konar land sauðfé sækir helst og hversu stórt svæði hver einstaklingur nýtir og hinsvegar hvort og hvernig beitaratferli sauðfjár breytist með ástandi lands og hvort atferlið sé breytilegt yfir beitartímann.

Áhrif hlýnunar og beitar á gróður- og jarðvegsauðlindina: Markmið verkefnisins er að meta hvaða áhrif hlýnun og sauðfjárbeit hafa á gróðursamfélög. Verkefnið var hluti af mastersverkefni Ránar Finnsdóttur við Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Beit og beitarrannsóknir: Markmið verkefnisins er að styrkja og auka faglega þekkingu í beitarfræðum og sér í lagi á áhrifum beitar á landgræðslusvæðum og mismunandi vistkerfi.

GróLind: Markmið verkefnisins eru að: 1) skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins, og 2) þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. Verkefnið er unnið í samstarfi við Landssamtök sauðfjárbænda, Bændasamtök Íslands, og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Landgræðslusvæði og girðingar: Landgræðslan hefur umsjón með 140 landgræðslusvæðum. Þar af eru um 100 friðuð og er heildarlengd girðinga 850 km. Heildarstærð friðaðra svæða er um 250 þúsund hektarar.

Bændur græða landið (BGL): Verkefnið Bændur græða landið hefur verið unnið í samstarfi Landgræðslunnar og bænda og annarra landeigenda frá árinu 1990. Tilgangur verkefnisins er að stöðva jarðvegsrof í heimalöndum og endurheimta vistkerfi.

Landbótasjóður Landgræðslunnar (LBS). Með verkefninu er ábyrgð og framkvæmd landgræðsluverkefna færð heim í hérað. Við styrkveitingar er lögð áhersla á stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og endurheimt vistkerfa. Auk þess er lögð áhersla á sjálfbæra landnýtingu og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.

Frævinnsla. Landgræðslan starfrækir fræverkunarstöð í Gunnarsholti þar sem fræ er verkað til landgræðslu. Landgræðslan ýmist ræktar eða safnar fræi af þeim tegundum sem hún nýtir til landgræðslu og hefur fræverkunarstöðin um langt skeið framleitt mest af því fræi sem notað er í landgræðslu hér á landi. Í dag verkar stöðin fræ af túnvingli og melgresi auk þess sem framleiddar eru baunagrasplöntur. Þá var ráðist í mikla söfnun á birki með hjálp fyrirtækja og almennings og hluti af því fræi var hreinsaður og þurrkaður í fræverkmiðju stofnunarinnar.

Gæðaeftirlit á fræframleiðslu hjá Landgræðslunni: Markmið er að hafa eftirlit með gæðum fræs sem notað er til uppgræðslu til að tryggja góðan árangur sáninga. 

Varnir gegn landbroti (VGL). Viðfangsefni verkefnisins er að vinna gegn landbroti af völdum vatna og koma þannig í veg fyrir eða lágmarka tjón á mannvirkjum, gróðri eða jarðvegi. Verkefnin skiptast einkum í bakkavarnir og varnargarða, en sjaldnar er unnið að öðrum verkefnum s.s. tilflutningi farvega eða öðru slíku.

Hagagæði. Frá og með árinu 2017 hefur Landgræðslan starfrækt verkefnið Hagagæði sem fjallar um landnýtingu og úttektir á hrossahögum. Verkefnið snýst um að hrossabændur og aðrir sem halda hross geti með formlegum hætti fengið staðfest að landnýting þeirra sé sjálfbær eða að öðrum kosti fengið leiðbeiningar um úrbætur.

Dimmuborgir. Dimmuborgir eru friðlýst náttúruvætti í umsjón Landgræðslunnar. Samkvæmt. talningum heimsækja um 400 þúsund manns Dimmuborgir ár hvert og því hefur stofnunin byggt göngustíga og fræðsluskilti með það að markmiði að fræða gesti um staðinn og vernda þetta einstaka náttúruvætti.

Landgræðsluverðlaun 2021

Landgræðsluverðlaun

Ásgeir Árnason bóndi í Stóru-Mörk III, Vestur-Eyjafjöllum og bændur á Merkurbæjunum voru afar afkastamiklir á árunum eftir Þjóðargjöfina við að græða upp víðfeðm rofabörð á jörðum sínum í samstarfi við Landgræðslunna og var Ásgeir þar jafnan fremstur í flokki. Hann beitti sér einnig fyrir gerð varnargarða við Markarfljót en það hafði um margra áratuga skeið brotið land jarðanna í Mörk. Ásgeir kynntist ungur töfrum Almenninga og Þórsmerkur og barðist allan sinn búskap fyrir hag þeirra og verndun. Hann tók virkan þátt í samningaferlinu um beitarfriðun Almenninga, sem hófst 1985 og lauk 1990 með samningi við Landgræðsluna. Þar með var allt Þórsmerkursvæðið beitarfriðað. Ásgeir hvatti sveitarstjórn til að leggja framlag á móti Landgræðslunni vegna uppgræðslu og gróðurbóta á þessum afréttum. Framlagið sýndi vel áhuga heimafólks á vernd og endurheimt landkosta. Hann var í forsvari bænda í Stóru-Mörk sem gerðu Landgræðslunni kleift að beitarfriða allt Þórsmerkursvæðið með því að girða á landi þeirra úr Jökulsárlóni og í Markarfljót.

Ásgeir er hafsjór af fróðleik um afrétti Vestur-Eyjafjallahrepps og um örnefni í landi Merkurbæjanna.

Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir bóndi í Stóru-Mörk III var í framvarðasveit Merkurbænda sem í kjölfar öskufalls úr Eyjafjallajökli árið 2010 hófu uppgræðslu í samstarfi við Landgræðsluna á jökuláraurum í Merkurnesi og allt inn að Gígjökli. Uppgræðslan batt gjóskuna og kom þar með í veg fyrir að askan bærist yfir byggðirnar beggja megin við Markarfljótið. Aðalbjörg stóð fyrir því að bændurnir á Merkurbæjunum, í samstarfi við Landgræðsluna, girtu varnargirðingu í heimalandi þeirra úr Markarfljóti og upp í fjalllendið til að friða þessar uppgræðslur fyrir beit og gera þær öflugri til að takast á við næsta öskufall og náttúruhamfarir. Nú er víði- og birkigróður að nema þarna land sem gerir viðnámsþrótt landsins enn öflugri. Þau feðgin Ásgeir og Aðalbjörg Rún eru sannir landgræðslubændur.

Skútustaðahreppur – Sveitarfélag með virka umhverfisstefnu

Í umhverfislegu tilliti er náttúrufar í Skútustaðahreppi einstakt. Meirihluti sveitarfélagsins er í óbyggðum og nær það upp á miðjan Vatnajökul. Skútustaðahreppur kom fyrst fram á sjónarsviðið sem slíkur um miðbik 19. aldar.

Íbúar í Skútustaðahreppi eru upp til hópa miklir áhugamenn um umhverfismál og landvernd. Framsæknar sveitarstjórnir liðinna ára og áratuga beittu sér í umhverfismálum og hafa nú íbúar í Skútustaðahreppi tekið forystuhlutverk á ýmsum sviðum umhverfismála. Sveitarfélagið hefur sett sér metnaðarfulla og virka umhverfisstefnu.

Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri, segir að verkefnið Bændur græða landið (BGL) hafi fest rætur í sveitarfélaginu og skilað miklum árangri. Þá hafi samstarf við Landgræðsluna í fjölmörg ár haft mikið að segja og m.a. hjálpað bændum að stýra sauðfjárbeit á skilvirkan hátt. Hér má líka nefna Landbótasjóð sem hefur stutt marga til landbóta.

Ferðaþjónustan hefur vaxið gríðarlega í Skútustaðahreppi á liðnum árum. Sveitarstjórnarmenn gerðu sér fljótt grein fyrir því að álag á vistkerfi Mývatns væri of mikið og fráveitumálum þyrfti að koma í betra horf. Ákveðið var að fara svonefnda „svartvatnsleið“ og byggður tankur fyrir svartvatn á Hólasandi. Verkefninu má lýsa á þann hátt að ákveðið hafi verið taka á brott vandamál og breyta yfir í tækifæri.

Í tengslum við sameiningaviðræður Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hefur verið lögð enn þyngri áhersla á umhverfismál og tengingu þeirra við loftslagsmál. Í þessu sambandi má nefna dreifingu á heyrúllum og lífrænum áburði.

Undanfarin misseri hefur verið mikil vakning í umhverfismálum á svæðinu sem hefur
leitt þess að enn fleiri tækifæri hafa verið greind. Nefna má söfnun á öllum lífrænum úrgangi í héraði og nýtingu hans til uppgræðslu og/eða ræktunar. Aftur eru Mývetningar að breyta vandamáli í tækifæri.

Sveinn segir að allt sem gert hafi verið – og eigi eftir að vinna á sviði umhverfismála – tengist saman – og tengist við aðra hagaðila. Íbúar geri sér mæta vel grein fyrir því að þeir verði að leggja verulega af mörkum þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum. „Land er stærsti losunarvaldur á koldíoxíði á Íslandi en á sama tíma býr þetta sama land yfir leið sem gerir okkur kleift til að binda koldíoxíð, ekki síst með landgræðslu og endurheimt vistkerfa. Við horfum til tækifæranna og á hvaða hátt við getum leyst vandamálin.“

Bláskógaskóli og Menntaskólinn á Laugarvatni – Langimelur

Verkefnið við Langamel hófst árið 2016. Umhverfisnefnd ML frétti af verkefni Landverndar um vistheimt með skólum og vildi vera með í því. Nefndin ákvað að taka fyrir uppblásið svæði sem næst skólanum og fékk leyfi til að hefja uppgræðslu á Langamel. Langimelur er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Laugarvatni, við gamla Lyngdalsheiðarveginn og vegarslóði er upp að honum. Svæðið er innan og utan skógræktargirðingarinnar. 
Staðurinn er ákjósanlegur til að rannsaka landgræðslu með og án sauðfjár. Nemendur í jarðfræði settu upp tilraunareiti með hjálp Landverndar og nemendur unnu með þá í nokkur ár.
Árið 2018 sást greinilega að svæðinu í kringum reitina hafði hrakað mikið yfir veturinn. Umhverfisnefndin ræddi þá Hrein Óskarsson og Trausta Jóhannson í Skógrækt ríkisins um að hjálpa til við að skipuleggja hertar aðgerðir á öllu svæðinu. Eins var grunnskólanum á Laugarvatni boðið að koma í samstarf um þetta stóra verkefni og hefur Guðni Sighvatsson verið þar fremstur í flokki.

Aðstandur verkefnins fengu styrk frá sveitarfélaginu til að byrja uppgræðsluna. Svæðinu var skipt í minni aðgerðarsvæði og í maí 2019 var hafist handa við að setja niður birki á fyrsta hlutann ásamt því að sá grasfræi og hvítsmára og gefa áburð. Verkefnið fékk styrk frá Landsbankanum til áframhaldandi aðgerða 2020 og 2021.

Hingað til hafa nemendur:

  • Plantað 1420 birkitrjám
  • Gefið 425 kg af áburði
  • Sáð 50 kg af gras- og smárafræjum
  • Sett eina gamla heyrúllu í rofabarð

Áframhaldandi aðgerðir halda áfram í maí 2021 og um ókomna framtíð ef fjármagn fæst til verkefnisins.

!

Ársskýrsla 2020

  • Lykiltölur
  • Vörður
  • Rekstraryfirlit
  • Ávarp landgræðslustjóra
  • Ávarp umhverfisráðherra
  • Endurheimt þurrlendis
  • Endurheimt votlendis
  • Nýting lífrænna efna
  • Útbreiðsla birkiskóga
  • Kolefnisbókhald
  • GróLind
  • Landupplýsingar
  • Faith for Nature
  • Samstarf um vernd og endurheimt
  • Samstarf um sjálfbæra landnýtingu
  • Vernd og endurheimt
  • Sjálfbær landnýting
  • Landgræðsluverðlaun 2021